top of page
Search
  • Zanny Lind

Janúar hvolparnir eru fæddir


Fimm dásamlegir hvolpar komu í heiminn í nótt. Þrír rakkar og tvær tíkur. Salka stóð sig eins og hetja og blés varla úr nös (eða svoleiðis!)

Við sáum það fljótt í gær að það væri farið að styttast verulega í komu hvolpanna. Salka lá bara og svaf og vildi lítið borða. Öðru hvoru kom hún samt fram og sótti mig, því það er svo gott að fá knús í gotkassanum :) Þegar fjölskyldumeðlimir (að undanskilinni húsmóðurinni) fóru að sofa í gærkvöldi var Salka farin að krafsa aðeins en ennþá nokkuð róleg. Fyrsti hvolpurinn kom svo í heiminn kl. 03.30. Þau komu svo eitt af öðru þar til sá síðasti fæddist um kl. 06.30. Hvolparnir voru á bilinu 160 - 185 gr. Það er fín stærð en mikið þykir manni þeir alltaf agnarsmáir!

Móður og hvolpum heilsast vel , Salka kann þetta og er alveg fyrirmyndar móðir. Hún er farin að mjólka vel og allir hvolparnir hafa þyngst frá því við fæðingu. Ugla og Kría eru mjög forvitnar og skilja ekkert í því að fá ekki að fara inn til Sölku sinnar og heilsa en það fær að bíða aðeins, við leyfum öllum að jafna sig eftir átökin áður en við leyfum þeim að kjassast í hnoðrunum :)

Næstu dagar og vikur fara svo í að kynnast og knúsa þessa gleðigjafa og við getum með sanni sagt að okkur á ekki eftir að leiðast það :)

Það hefur mikið verið spurt um þetta got og margir komnir á biðlistann, sem er þó ennþá opinn. Við förum að skoða umsóknir eftir u.þ.b 2 vikur. Það verða allar umsóknir skoðaðar og það fá allir tölvupóst þegar búið er að velja ný heimili. Eins og gefur að skilja eru umsóknirnar mun fleiri en hvolparnir og okkur finnst afar leiðinlegt að geta ekki látið alla fá hvolp, enda efumst við ekki um það að þeir fengju frábær heimili, ást og umhyggju hjá öllum þessum frábæru fjölskyldum sem hafa skráð sig. Það að fá ekki hvolp úr þessu goti hefur því ekkert að segja um það hvort við teljum umsækjendur vera góða eða ekki.




66 views0 comments

Recent Posts

See All
Post: Blog2_Post
bottom of page